Tímamótasamningur um sölu á forgangsorku
Elías Jónatansson, forstjóri Orkubús Vestfjarða og Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, undirrituðu í dag samning um sölu á forgangsorku til fjarvarmaveitna á Vestfjörðum næstu fjögur árin. Þannig verður hægt að reka fjarvarmaveiturnar án þess að reiða sig á olíu sem varaafl þegar afhending raforku er skert. Í nýjum samningi eru heimildir til skerðinga en þær eru takmarkaðar við fjóra daga en ekki 120 líkt og í eldri samningi.
Fjarvarmaveitur hafa hingað til keypt skerðanlega orku sem er seld á töluvert lægra verði en forgangsorka, enda er hún aðeins í boði í góðum vatnsárum. Samningurinn tryggir fyrirsjáanleika í rekstri fjarvarmaveitna á Vestfjörðum með tryggri raforkuafhendingu næstu fjögur árin.