Loftslagsmál snúast um græna orku

11.10.2023Fyrirtækið

Haust­fundur Lands­virkj­un­ar árið 2023 var haldinn fyrir fullum sal á Hilton Reykjavík Nordica miðvikudaginn 11. október.

Þóra Arnórsdóttir, forstöðumaður samskipta, stýrði pallborðsumræðum Höllu Hrundar Logadóttur orkumálastjóra, Guðlaugs Þórs Þórðarsonar, um­hverf­is-, orku- og lofts­lags­ráðherra og Harðar Arnarsonar forstjóra.
Þóra Arnórsdóttir, forstöðumaður samskipta, stýrði pallborðsumræðum Höllu Hrundar Logadóttur orkumálastjóra, Guðlaugs Þórs Þórðarsonar, um­hverf­is-, orku- og lofts­lags­ráðherra og Harðar Arnarsonar forstjóra.

Loftslagsmál snúast um græna orku

Horfa á upptöku af haustfundi

„Verða börnin okkar og barnabörn jafn hreykin af okkur og við getum verið hreykin af þeim sem á undan gengu? Eins og staðan er núna þurfum við virkilega að herða okkur til þess að svo megi verða,“ sagði Guðlaugur Þór Þórðarson, um­hverf­is-, orku- og lofts­lags­ráðherra, í ræðu sinni á haust­fundi Lands­virkj­un­ar 2023 sem haldinn var fyrir fullum sal á Hilton Reykjavík Nordica.

Guðlaugur sagði að loftslagsmál snerust um græna orku, málið væri ekki flóknara en það. Verkefnið væri að skipta út þeirri gráu orku sem eftir væri, í samgöngum á landi, sjó og í lofti.

Þóra Arnórsdóttir, forstöðumaður samskipta, stýrði fundinum og pallborðsumræðum að loknum erindum. Þar sagði Hörður Arnarson forstjóri að mikil þörf væri á því að mæta augljósri orkuþörf samfélagsins í nútíð og framtíð með virkjunarframkvæmdum. Hann vék m.a. að þeim röddum sem hefðu verið háværar og fullyrt að engin frekari orkuvinnsla væri nauðsynleg.

Þurfum að gera okkur grein fyrir orkuþörf

Skoða glærukynningar frá haustfundi

„Í grund­vall­ar­atriðum þurf­um við að gera okk­ur grein fyr­ir því sem sam­fé­lag hver orkuþörf­in er og við þurf­um að gera okk­ur grein fyr­ir því hvað ger­ist ef við höf­um ekki ork­una. Ef við ger­um okk­ur grein fyr­ir því hversu al­var­legt það er þá þurf­um við öll að sam­ein­ast í því að greiða göt­ur þess­ara verk­efna. Það hef­ur verið mjög skaðlegt und­an­far­in ár að það hafa verið há­vær­ar radd­ir sem hafa verið að rök­ræða það að það þurfi ekki orku,“ sagði Hörður.

Auk Harðar og Guðlaugs Þórs tók Halla Hrund Logadóttir orkumálastjóri þátt í pallborðsumræðunum.

„Ef við lítum til sögu Landsvirkjunar og þess ríka hlutverks sem fyrirtækið hefur haft í því að byggja upp raforkukerfið og skapa gjaldeyristekjur fyllumst við stolti. Núna erum við á krossgötum – við erum að horfa á síðustu orkuskiptin, sem munu gjörbreyta samfélaginu. Það mun kosta og verða áhættusamt fyrir fyrirtæki eins og Landsvirkjun, mögulega skila sér í minni hagnaði í ársreikningum og mögulega leiða af sér pólitískar óvinsældir í dag, en kannski – ef fyrirtækin taka þessa áhættu með okkur – munu ævisögur framtíðarinnar, eins og ævisaga Jóhannesar Nordal af fortíðinni, horfa til þeirra sem taka ákvarðanirnar núna sem samfélagshetja,“ sagði Halla Hrund m.a. í umræðunum.

Bekkurinn var þéttsetinn á haustfundi Landsvirkjunar.
Bekkurinn var þéttsetinn á haustfundi Landsvirkjunar.

24 ára leyfisveitingaferli Hvammsvirkjunar

Jóna Bjarnadóttir, framkvæmdastjóri samfélags og umhverfis, fjallaði um leyfisveitingaferli virkjana á Íslandi í kynningu sinni. Hún rakti m.a. leyfisveitingaferli Hvammsvirkjunar, sem hófst árið 1999 og ekki sér enn fyrir endann á, en dóttir hennar fæddist það ár og er núna orðin 24 ára.

Hún sagðist ekki treysta sér til þess að spá fyrir um framvindu ferlisins héðan í frá og hvenær líkur væru á því að virkjunin yrði gangsett. „Ef allt gengur að óskum á næstu vikum verður hægt að gangsetja hana árið 2028. Ef frekari tafir verða getur það orðið 2029; þá verður dóttir mín orðin þrítug, og kannski verð ég orðin amma,“ sagði Jóna í erindi sínu.

Gunnar Guðni Tómasson, framkvæmdastjóri vatnsafls, hélt erindi sem fjallaði um þau tækifæri og áskoranir sem fylgdu því að reka einangrað raforkukerfi þegar orkan væri uppseld.

Hann útskýrði að orkusala væri ekki miðuð við slakasta þekkta vatnsárið, eins og öruggast væri að gera, heldur væri miðað við meiri árlega sölu, en gerðir samningar við orkukaupendur sem væru reiðubúnir til að víkja í slökum vatnsárum, svokallaðir skerðanlegir samningar. Þannig væri hægt að hámarka nýtingu auðlindarinnar og fjárfestingarinnar í raforkukerfinu.

„En þetta þýðir að í fullseldu kerfi verða skerðingar tíðari en við höfum átt að venjast hingað til. Tækifærin myndast hins vegar í betri vatnsárunum. Þá erum við með umframorku í kerfinu, sem við getum reynt að nýta. Það höfum við gert með því að bjóða víkjandi orku á hagstæðu verði og það hafa t.d. fiskmjölsverksmiðjur og fjarvarmaveitur nýtt sér til að fara í gegnum hagstæð og mjög vel heppnuð orkuskipti.“

Þörf vegna orkuskipta um fjórar teravattstundir

Sveinbjörn Finnsson, forstöðumaður verkefnaþróunar á sviði viðskiptaþróunar og nýsköpunar, fjallaði um sýn Landsvirkjunar á orkuskiptin fram til ársins 2035. Hann sagði að orkuskiptin fram að þeim tíma yrðu afturþung hér á landi, þar sem tæknilegar lausnir fyrir alþjóðaflug væru ekki enn komnar fram.

„Raforkuþörfin fyrir orkuskipti í samgöngum á landi er þegar byrjuð að koma fram og mun halda áfram þegar fram líða stundir. Sérstaklega tekur hún flug árið 2030, þegar bann við nýskráningu bensín- og dísilbíla tekur gildi. Heildarmagnið er metið um fjórar teravattstundir af raforku á ári. Orkuskipti á hafi gerast aðeins síðar, þar sem lausnirnar eru ekki komnar jafn langt, en í heildina þarf svipað magn raforku til þeirra, um fjórar teravattstundir. Flugið þarf obbann af orkunni fyrir orkuskiptin, eða um átta teravattstundir og þörfin kemur síðar á tímabilinu.“

Sveinbjörn gerir ráð fyrir því að orkuskiptin á landi verði komin hálfa leið árið 2035 og því þurfi um tvær teravattstundir af raforku fyrir þau. Siglingar verði komin um 60% af leiðinni og þurfi því um þrjár teravattstundir, þar af eina í innfluttu grænu eldsneyti og tvær frá rafeldsneyti.

Hann reiknar með því að orkuskipti í flugi verði komin u.þ.b. 15% á leið árið 2035 og að sú raforkuþörf verði uppfyllt með innfluttu grænu eldsneyti. Alls verði því u.þ.b. 35% af orkuskiptum lokið árið 2035 og raforkuþörf þeirra í kringum fjórar teravattstundir alls, auk tveggja teravattstunda í innfluttu grænu eldsneyti.

Orkuöryggi þjóðarinnar ógnað 2024-2028

Jónas Hlynur Hallgrímsson, sérfræðingur í viðskiptagreiningu og þróun markaðar, fór yfir mat Landsvirkjunar á raforkueftirspurn á þessu sama tímabili, til ársins 2035. Samkvæmt spá Landsvirkjunar vex hún um 6,5 teravattstundir, þar af eru fjórar vegna fyrrgreindra orkuskipta eins og kom fram hjá Sveinbirni og tvær og hálf vegna almennrar framþróunar samfélagsins og mögulegrar sölu til stórnotenda.

Jónas sagði að ýmsar áskoranir væru framundan. Hann sagði að miðað við fyrirsjáanlega eftirspurn og gang mála í aukinni orkuöflun sæi hann fram á að orkuöryggi þjóðarinnar yrði ógnað árin 2024-2028. Þá yrði orkujöfnuður neikvæður, þ.e. eftirspurn meiri en framboð. Á árunum 2028-2035 væru hins vegar líkur á því að framboð ykist og orkujöfnuður yrði jákvæður.

Hann lagði áherslu á að við þessar aðstæður yrðu ekki gerðir samningar um sölu raforku til stórnotenda án þess að aukin orkuöflun kæmi til jafnhliða þeim. „Það getur ógnað orkuöryggi heimila og minni fyrirtækja. Við höfum séð það síðustu daga, í heildsöluviðskiptum okkar, að það hefur verið mikil eftirspurn eftir rafmagni þar, töluvert meiri en sem nemur vexti almenna markaðarins,“ sagði hann. „Þarna þurfa stjórnvöld að stíga inn í og tryggja orkuöryggi smærri fyrirtækja og heimila,“ bætti hann við.