Loftslagsmál snúast um græna orku
„Verða börnin okkar og barnabörn jafn hreykin af okkur og við getum verið hreykin af þeim sem á undan gengu? Eins og staðan er núna þurfum við virkilega að herða okkur til þess að svo megi verða,“ sagði Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, í ræðu sinni á haustfundi Landsvirkjunar 2023 sem haldinn var fyrir fullum sal á Hilton Reykjavík Nordica.
Guðlaugur sagði að loftslagsmál snerust um græna orku, málið væri ekki flóknara en það. Verkefnið væri að skipta út þeirri gráu orku sem eftir væri, í samgöngum á landi, sjó og í lofti.
Þóra Arnórsdóttir, forstöðumaður samskipta, stýrði fundinum og pallborðsumræðum að loknum erindum. Þar sagði Hörður Arnarson forstjóri að mikil þörf væri á því að mæta augljósri orkuþörf samfélagsins í nútíð og framtíð með virkjunarframkvæmdum. Hann vék m.a. að þeim röddum sem hefðu verið háværar og fullyrt að engin frekari orkuvinnsla væri nauðsynleg.