Landsvirkjun selur Háaleitisbraut 68
Stjórn Landsvirkjunar hefur samþykkt að selja fyrrum höfuðstöðvar félagsins að Háaleitisbraut 68 í Reykjavík. Lýkur þar með endanlega tæplega hálfrar aldar aðsetri orkufyrirtækis þjóðarinnar á þeim stað. Síðar á þessu ári skýrist hvar Landsvirkjun sest að til framtíðar, en þar til nýjar höfuðstöðvar verða tilbúnar hefur fyrirtækið komið sér vel fyrir við Katrínartún 2.
Undanfarin ár hefur Landsvirkjun skoðað möguleika á nýju húsnæði, enda var húsnæðið að Háaleitisbraut ekki lengur hentugt. Öllum slíkum vangaveltum var hins vegar hætt á meðan kórónuveirufaraldurinn gekk yfir. Að honum loknum greindist mygla í húsnæðinu og þá hófst aftur leit að nýju húsnæði. Starfsfólk höfuðstöðvanna var um tíma á þremur stöðum í borginni, í Grósku, á Hafnartorgi og við Háaleitisbraut, en er nú allt sameinað í leiguhúsnæði við Katrínartún. Ekki hefur verið ákveðið hvort nýtt húsnæði verður leigt, keypt eða það byggt frá grunni.
Eign Landsvirkjunar að Háaleitisbraut 68 er rúmir 4.500 fm2 eða rétt tæplega helmingur alls hússins.