Landsvirkjun bakhjarl IGC 2024

25.01.2024Samfélag

Landsvirkjun verður virkur þátttakandi alþjóðlegrar jarðvarmaráðstefnu sem haldin verður í Hörpu 28.-30. maí. Reiknað er með miklum fjölda erlendra og íslenskra vísindamanna á ráðstefnuna.

Ein stærsta jarðvarmaráðstefna heims

Landsvirkjun verður einn helsti bakhjarl alþjóðlegrar jarðvarmaráðstefnu sem haldin verður í Hörpu 28.-30. maí. Reiknað er með miklum fjölda erlendra og íslenskra vísindamanna á ráðstefnuna.

Bjarni Pálsson forstöðumaður Þróunar jarðvarma, Rósbjörg Jónsdóttir framkvæmdastjóri Orkuklasans og Alma Stefánsdóttir sérfræðingur í Þróun jarðvarma og fulltrúi Landsvirkjunar í fagnefnd IGC undirrituðu samstarfssamning þessa efnis á dögunum.

Ráðstefnan, Iceland Geothermal Conference, er ein stærsta ráðstefna heims á sviði jarðvarmanýtingar. Hún er alla jafna haldin á 2-3 ára fresti en var síðast árið 2018 þar sem World Geothermal Conference var haldin hér á landi 2020 og 2021.

Orkuklasinn stuðlar að nýsköpun

Orkuklasinn hefur veg og vanda af ráðstefnuhaldinu en hann er klasasamstarf fyrirtækja á sviði orkutengdrar starfsemi á Íslandi. Tilgangur Orkuklasans er að stuðla að nýsköpun og auka verðmæti verkefna sem tengjast endurnýjanlegum orkugjöfum. IGC ráðstefnurnar stuðla að því að Ísland sé einn helsti umræðuvettvangur jarðvarma og endurnýjanlegrar orku í heiminum.

Félagar Orkuklasans fá tækifæri til að koma þekkingu sinni, vörum og þjónustu á framfæri, skapa ný viðskiptatækifæri og efla þau sem fyrir eru með tæknisýningu, samhliða fyrirlestrum og fyrirtækjafundum.