Lykilaðgerð í kolefnishlutleysi Landsvirkjunar 2025
Landsvirkjun ætlar að fanga og dæla niður koldíoxíði frá Þeistareykjastöð og jafnframt draga úr losun koldíoxíðs frá Kröflustöð með stýringu á vinnslu þar. Þetta verkefni hefur hlotið heitið Koldís. Búist er við að framkvæmdir geti hafist á næsta ári og að Koldís verði komin í fullan rekstur árið 2025.
Landsvirkjun verður kolefnishlutlaus árið 2025 og er nú þegar komin vel á leið, en kolefnisspor starfseminnar hefur lækkað um 61% frá árinu 2008. Ein lykilaðgerð í þeirri vegferð er að draga verulega úr losun vegna vinnslu raforku með jarðvarma, þar sem mikill meirihluti losunar fyrirtækisins á gróðurhúsalofttegundum er til kominn vegna jarðvarmavinnslu. Með Koldísarverkefninu mun Landsvirkjun fanga nær allt koldíoxíð og brennisteinsvetni frá Þeistareykjastöð og skila aftur í jörðu frá árinu 2025.
Hörður Arnarson, forstjóri: „Koldís er mikilvægt verkefni sem við hjá Landsvirkjun tökumst á við næstu árin. Það er enn eitt dæmið um mikinn metnað okkar í loftslagsmálum þar sem við höfum sett okkur skýr markmið um kolefnishlutleysi 2025.“
Hringrás koldíoxíðs lokað
Í Koldísarverkefninu er unnið að hönnun og uppsetningu búnaðar til föngunar og niðurdælingar koldíoxíðs frá Þeistareykjastöð. Til stendur að fanga bæði koldíoxíð (CO2) og brennisteinsvetni (H2S) frá stöðinni, leysa í vatni og dæla aftur í sitt náttúrulega umhverfi. Þar með er hringrás þessara gastegunda við jarðvarmavinnsluna lokað, í stað þess að hún sé rofin og þessum gastegundum veitt til andrúmslofts. Meginþættir slíks kerfis eru gasföngunarturn, lagnir frá gasföngun að niðurdælingarstað, niðurdælingarhola og vöktunarhola.
Einnig stendur til að kortleggja og kostnaðarmeta leiðir til þess að draga úr losun koldíoxíðs frá Kröflustöð með stýringu á jarðgufuvinnslu, en losun koldíoxíðs er mismikil milli borhola. Þetta mun skila sér í aðgerðaáætlun þannig að losun koldíoxíðs sé lágmörkuð, þó þannig að áhrifum þess á raforkuvinnslu Kröflustöðvar verði haldið í lágmarki.
Mannvit og Carbfix ráðgjafar
Samið hefur verið við Mannvit og Carbfix um ráðgjöf við verkhönnun Koldísar, en þeim áfanga verkefnisins á að ljúka á þessu ári. Þær lausnir sem horft er til byggja á aðferðafræði sem meðal annars var þróuð í samstarfi Landsvirkjunar, HS Orku og Orkuveitu Reykjavíkur um samdrátt í losun jarðhitagasa fyrir um áratug. Gert er ráð fyrir að verkefnið nýti aðferðir sem Carbfix, dótturfélag Orkuveitu Reykjavíkur, hefur sótt um einkaleyfi fyrir.
Stórt framlag vegna skuldbindinga Íslands í loftslagsmálum
Samdráttur í losun frá jarðvarmavinnslu Landsvirkjunar mun hafa bein áhrif á skuldbindingar Íslands í loftslagsmálum. Aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum gerir ráð fyrir að losun vegna jarðvarmavirkjana á Íslandi minnki að minnsta kosti um 47% árið 2030, miðað við árið 2005. Landsvirkjun hefur einsett sér að gera enn betur og að losun frá jarðvarmavinnslu fyrirtækisins á Norðausturlandi minnki að minnsta kosti um 60% árið 2025, miðað við árið 2005.