Umhverfisstofnun auglýsti skömmu fyrir jól 2023 áform um að veita heimild til að breyta vatnshloti og rann athugasemdafrestur út 17. janúar. Sótt var um heimildina áður en virkjunarleyfið var fellt úr gildi, eða í janúar 2023 og var hún veitt í dag.
Í framhaldinu mun Orkustofnun auglýsa ný gögn og veita lögbundinn fjögurra vikna athugasemdafrest. Eftir það fær Landsvirkjun 2-4 vikur til að bregðast við athugasemdum og að því loknu hefur Orkustofnun tvo mánuði til að afgreiða virkjunarleyfi, verði það niðurstaðan.
Afgreiðslutíminn er því nokkuð óviss. Ef allir frestir verða nýttir til hins ítrasta, ætti virkjunarleyfið að liggja fyrir í síðasta lagi síðsumars. Það gæti þó gerst fyrr, allt eftir því hversu hratt gengur að vinna málið. Það er sagt með þeim fyrirvara að það verði niðurstaða Orkustofnunar að veita leyfið.
Að því gefnu að svo fari, fjalla sveitarfélögin og viðeigandi nefndir um framkvæmdaleyfisumsóknirnar að nýju þegar virkjunarleyfið liggur fyrir.