Jákvæður áfangi í höfn í leyfismálum Hvammsvirkjunar

10.04.2024Hvammsvirkjun

Grein eftir Ásbjörgu Kristinsdóttur, framkvæmdastjóra framkvæmda hjá Landsvirkjun.

Jákvæður áfangi í höfn

Umhverfisstofnun veitti í dag heimild til breytinga á vatnshloti vegna fyrirhugaðra framkvæmda við Hvammsvirkjun. Þetta eru gleðitíðindi – undirbúningur fyrir byggingu Hvammsvirkjunar hefur staðið lengi og með þessu færumst við skrefi nær því að geta hafið framkvæmdir.

Stutt forsaga

Sem kunnugt er sótti Landsvirkjun um virkjunarleyfi fyrir Hvammsvirkjun til Orkustofnunar í júní 2021 með það að markmiði að hefja byggingu hennar 2022 og taka hana í rekstur 2026. Orkustofnun veitti leyfið einu og hálfu ári síðar, í lok árs 2022 og því ljóst að verkefnið myndi frestast. Í kjölfarið var sótt um framkvæmdaleyfi til sveitarfélaganna tveggja, Skeiða- og Gnúpverjahrepps og Rangárþings ytra.

Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps var rétt búin að samþykkja framkvæmdaleyfið þegar Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála felldi virkjunarleyfið úr gildi í júní 2023. Sú ákvörðun var byggð á því að ekki hafi verið tekið nægt tillit til laga um stjórn vatnamála, en fyrsta vatnaáætlunin var gefin út í apríl 2022. Sú niðurstaða gerði það að verkum að sveitarfélögin urðu að staldra við og horfa til sömu atriða við útgáfu framkvæmdaleyfis.

Í ljósi þessarar stöðu var ákveðið að hætta við útboðsferli undirbúningsframkvæmda um ótilgreindan tíma en áformað hafði verið að þær gætu hafist það sumar.

Hvað hefur gerst síðan þá?

Umhverfisstofnun auglýsti skömmu fyrir jól 2023 áform um að veita heimild til að breyta vatnshloti og rann athugasemdafrestur út 17. janúar. Sótt var um heimildina áður en virkjunarleyfið var fellt úr gildi, eða í janúar 2023 og var hún veitt í dag.

Í framhaldinu mun Orkustofnun auglýsa ný gögn og veita lögbundinn fjögurra vikna athugasemdafrest. Eftir það fær Landsvirkjun 2-4 vikur til að bregðast við athugasemdum og að því loknu hefur Orkustofnun tvo mánuði til að afgreiða virkjunarleyfi, verði það niðurstaðan.

Afgreiðslutíminn er því nokkuð óviss. Ef allir frestir verða nýttir til hins ítrasta, ætti virkjunarleyfið að liggja fyrir í síðasta lagi síðsumars. Það gæti þó gerst fyrr, allt eftir því hversu hratt gengur að vinna málið. Það er sagt með þeim fyrirvara að það verði niðurstaða Orkustofnunar að veita leyfið.

Að því gefnu að svo fari, fjalla sveitarfélögin og viðeigandi nefndir um framkvæmdaleyfisumsóknirnar að nýju þegar virkjunarleyfið liggur fyrir.

Framkvæmdir fram undan

Stefnt er að því að hefja undirbúningsframkvæmdir vegna virkjunarinnar þegar framkvæmdaleyfi liggur fyrir. Þær framkvæmdir snúa að vegagerð og undirbúningi vinnubúðasvæðis.

Að auki verður byrjað á frárennslisskurði til að hægt sé að nýta efni þaðan í vegagerð. Þessar framkvæmdir gæti þurft að bjóða út með tilheyrandi fyrirvörum liggi framkvæmdaleyfi ekki fyrir.

Nú er bara að bíða og sjá hvort þetta gangi upp. Fari svo að leyfin liggi ekki fyrir í haust verður komin upp erfið staða sem gæti frestað verkefninu um enn eitt ár. Við hjá Landsvirkjun vonum auðvitað það besta og erum tilbúin að hefjast handa. Við hlökkum til að sjá hverflana fara að snúast í Hvammsvirkjun, samfélaginu öllu til heilla.