Landsvirkjun tekur fyrstu skref inn á skipulegan raforkumarkað
Landsvirkjun tekur þátt í söluferli fyrir langtímavörur, þ.e. grunnorku og mánaðarblokkir, sem Vonarskarð hefur auglýst í maí og júní. Fyrra söluferlið fyrir grunnorku var í dag og seldi Landsvirkjun rúmlega 90 GWst af raforku fyrir um 700 milljónir kr. Söluferli fyrir mánaðarblokkir verður á morgun.
Þetta eru fyrstu skref orkufyrirtækis þjóðarinnar inn á skipulegan raforkumarkað. Þá hefur fyrirtækið einnig verið í sambandi við Elmu, dótturfélag Landsnets, um mögulega þátttöku á markaði fyrir skammtímavörur sem áformað er að taki til starfa í upphafi næsta árs. Landsvirkjun hefur til þessa starfrækt eigin viðskiptavef þar sem raforka er seld til sölufyrirtækja.
Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið hefur veitt tveimur fyrirtækjum, Elmu orkuviðskiptum ehf. og Vonarskarði ehf., leyfi til reksturs raforkumarkaðar, í samræmi við orkustefnu stjórnvalda. Slíkir markaðir hafa verið starfræktir í nágrannalöndum okkar í áratugi og gefa mikilvægar upplýsingar um raforkuverð, eftirspurn og framboð.
Vonarskarð opnaði í vetur raforkumarkað með þátttöku allra sölufyrirtækja þar sem þeim býðst að eiga viðskipti sín á milli. Sölufyrirtækin eru níu og selja rafmagn áfram til heimila og smærri fyrirtækja; Atlantsorka, Fallorka, HS Orka, N1, Orka heimilanna, Orka náttúrunnar, Orkubú Vestfjarða, Orkusalan og Straumlind.
Af þessum níu sölufyrirtækjum eru fimm sem einnig vinna raforku sjálf. Landsvirkjun starfar eingöngu sem orkuvinnslufyrirtæki og selur orkuna í heildsölu eða beint til stórnotenda en ekki áfram í smásölu.