Fyrsta Goslokahátíð Kröflu

26.09.2024Samfélag

Fyrsta Goslokahátíð Kröflu var haldin helgina 20.-22. september 2024, en þá voru 40 ár liðin frá goslokum Kröfluelda.

Fyrsta Goslokahátíð Kröflu

Fyrsta Goslokahátíð Kröflu var haldin helgina 20.-22. september 2024, en þá voru 40 ár liðin frá goslokum Kröfluelda.

Allir viðburðirnir voru vel sóttir og fjöldi gesta í Kröflu á laugardeginum fór fram úr okkar björtustu vonum. Dagskráin var fjölbreytt og upphitun fyrir hátíðina hófst á fimmtudegi þegar karaokí græjunum var stungið í samband á Gamla bænum bistro.

Á föstudeginum voru frábærir tónleikar í Jarðböðunum við Mývatn þar sem heimamaðurinn Flyguy hitaði upp fyrir Jóa P og Króla. Stemmingin var mjög góð og á þriðja hundrað gesta á öllum aldri skemmti sér saman. Listamennirnir voru vel klæddir í kuldanum uppi á bakkanum en tónleikagestirnir höfðu það mjög gott í hlýjunni í lóninu.

Frumsýning í Kröflustöð

Laugardagurinn rann síðan upp, bjartur og fagur. Við buðum í opið hús í Gestastofunni við Kröflustöð, grill, leiki og heimsfrumsýningu á heimildamyndinni Krafla – umbrot og uppbygging.

Hamborgarar voru grillaðir í mötuneyti stöðvarinnar og Íþróttafélag Mývetninga sá síðan um að rifja upp leiki frá tímum goslokanna með börnum og foreldrum og vakti það gífurlega lukku.

Rúsínan í pylsuendanum var svo að sjálfsögðu bíósýningin sjálf þar sem glænýja heimildamyndin okkar, Krafla – umbrot og uppbygging, var frumsýnd. Fyrir frumsýninguna ávarpaði Elvar Magnússon stöðvarstjóri gestina og Gestur Gíslason, fyrrum starfsmaður Orkustofnunar og Bjarni Pálsson, forstöðumaður þróunar jarðvarma hjá Landsvirkjun, héldu erindi þar sem þeir rifjuðu upp þennan merkilega tíma og sögðu skemmtilegar sögur.

Gestafjöldinn var þvílíkur að ekki dugði minna en að hafa tvær sýningar. Mikil ánægja var með myndina og glimrandi lófatak var að loknum báðum sýningum. Mývetningarnir Stefanía Eir Vignisdóttir og Gasa Kenny framleiddu myndina fyrir Landsvirkjun í tilefni þessara tímamóta.

Þar sem þetta var alvöru frumsýning buðum við upp á popp og kók með sem vakti mikla lukku.

Á þriðja hundrað gesta heimsótti Kröflustöð þennan dag. Sérstaklega var gaman að sjá hve margir fyrrum starfsmenn sáu sér fært að heimsækja okkur.

Þeir sem voru í stuði eftir dagskrána í Kröflu reimuðu á sig hlaupaskóna og skelltu sér í Proseccohlaup Vogafjóss.

Á laugardagskvöldið var síðan blásið til stórtónleika í flugskýli Mýflugs. Þar komu fram Gugusar, Grétar Örvars og Erna Hrönn (sem hljóp í skarðið fyrir Siggu Beinteins og stóð sig frábærlega) og hljómsveitin Vök. Mývatn Öl var með kaldan á krana og Daddis pizza sá um að enginn yrði svangur. Tónleikarnir tókust frábærlega, gestir líklega um 200 og mikil gleði og glaumur.

Samstarf nærsamfélags

Á sunnudeginum var vísindastofa með eldgosaþema á vegum Vatnajökulsþjóðgarðs og Umhverfisstofnunar. Þar mátti fylgjast með myndun Öskju og sjá Herðubreið gjósa ásamt bíósýningu með eldfjallaþema, leiknum „gólfið er fljótandi hraun“ og ýmsu föndri. Frábærlega vel heppnuð vísindastofa og mætingin frábær eins og á alla aðra viðburði helgarinnar.

Það er óhætt að segja að við hjá Landsvirkjun séum í skýjunum með helgina og ótrúlega þakklát þeim sem eiga veg og vanda af því að skipuleggja hátíðina með okkur, þetta hefði aldrei orðið að veruleika nema með frábæru samstarfi við fólk, fyrirtæki og félagasamtök í nærsamfélaginu.