Bónus, viðbót eða umframorka
Undanfarin misseri hefur verið rætt um skerðanlega orku og forgangsorku. Það er ákaflega flókið að reka lokað raforkukerfi 100% endurnýjanlegrar orku þar sem náttúruöflin ráða vinnslugetu hvers árs og ekki er hægt að bæta meiri orku inn á kerfið þegar eftirspurnin eykst. Við erum eina þjóðin í heimi sem rekur slíkt kerfi og ég er ítrekað spurður hvernig þetta sé eiginlega hægt.
Okkur hefur tekist vel upp á undanförnum áratugum. Orkuvinnslugetan er hins vegar mismikil á hverju ári. Við semjum um sölu á orku miðað við lökustu orkuvinnsluárin, því við getum ekki lofað fyrirfram að meiri orka verði til. Þessi orka er svokölluð forgangsorka, sú orka sem við getum alltaf staðið við að afhenda. Þetta hugtak, forgangsorka, er hvergi annars staðar til. Orkuvinnslufyrirtæki í öðrum löndum selja einfaldlega alla orku sem þau framleiða og ef skortur verður þá er gripið til varaafls, hvort sem það er gas- eða kolaorkuver, jafnvel kjarnorkuver.
Orkufyrirtæki þjóðarinnar leggur alla áherslu á ábyrgan rekstur og lofar ekki upp í ermina á sér. Um þetta snýst svonefnt orkuöryggi fyrst og fremst: að viðskiptavinir okkar, stórir og smáir, geti gengið að umsaminni forgangsorku vísri.