Á réttri leið að kolefnishlutleysi 2025

08.09.2021Umhverfi

Niðurstöður hálfsársuppgjörs sýna að við erum á réttri leið að markmiði okkar um kolefnishlutleysi árið 2025. Kolefnisspor fyrri hluta ársins var 43% minna en á sama tímabili árið 2020.

Úr niðurstöðum hálfsársuppgjörs loftslagsbókhalds má lesa að losun stendur í stað á milli fyrri hluta áranna 2020 og 2021. Sé tímabilið borið saman við sama tímabil ársins 2019 sést að losun var 11% minni árið 2021 en árið 2019, síðasta samanburðarhæfa ár áður en heimsfaraldurinn olli samdrætti í orkuvinnslu og -sölu. Þá eykst kolefnisbinding í jarðveg og gróður um 13% á milli ára og mun kolefnisbinding á okkar vegum vera rúm 37 þúsund tonn árið 2021, eða sem nemur 40% af losun véla og tækja á Íslandi árið 2019.

1,4 milljóna tonna framlag til loftslagsmála

Ef losun fyrri hluta árs hefði verið jafn mikil og gengur og gerist hjá orkufyrirtækjum í heiminum hefði hún orðið 1,4 milljónum tonna CO2 ígilda meiri en ella. Losunin hjá okkur á tímabilinu var 3,1 gramm á kílóvattstund, en viðmiðið sem við notumst við er 209 g/kWst, miðað við varfærið mat. Nánari upplýsingar um aðferðafræðina við það mat má finna hér. Viðmið fyrir græna orkuvinnslu í heiminum er í kringum 100 g/kWst, sem sýnir að losun okkar er lítil á alla mælikvarða.

Helstu niðurstöður

Kolefnisspor starfsemi Landsvirkjunar á fyrri hluta ársins er áætlað hafa verið 2,6 þúsund tonn CO2 ígilda, en var 4,6 þúsund tonn á sama tímabili árið áður. Kolefnisspor minnkar því um 43% frá sama tímabili árið áður.

Kolefnisspor á orkueiningu á fyrri hluta ársins er áætlað hafa verið 0,4 g/kWst en var 0,7 g/kWst á sama tímabili árið áður. Kolefnisspor á orkueiningu minnkaði því um 43% frá sama tímabili árið áður.

Losun á fyrri hluta ársins er áætluð hafa verið 21,2 þúsund tonn CO2 ígilda, en var 21,1 þúsund tonn CO2 ígilda á sama tímabili árið áður. Losun stendur því í stað á milli ára yfir þetta tímabil. Hafa ber í huga að árið 2020 dróst orkuvinnsla og -sala saman vegna COVID-19 faraldursins.

Losun á orkueiningu á fyrri hluta ársins stendur einnig í stað og er áætluð hafa verið 3,1 g/kWst.

Losun frá jarðvarma var 15,8 þúsund tonn á tímabilinu, miðað við 15,3 þúsund tonn á sama tímabili árið áður. Losun frá jarðvarma eykst því um 3% á milli ára.

Losun frá lónum var 3,2 þúsund tonn á tímabilinu, borið saman við 3,4 þúsund tonn á sama tímabili árið áður. Losun frá lónum lækkar því lítillega á milli ára.

Losun vegna bruna eldsneytis var 191 tonn á tímabilinu, en 175 tonn á sama tímabili árið áður. Losun vegna bruna eldsneytis hækkar því um 9% á milli ára eftir að hafa minnkað um fjórðung tvö ár í röð.

Binding kolefnis í jarðvegi og gróðri var 18,6 þúsund tonn á tímabilinu, miðað við 16,5 þúsund tonn á sama tímabili árið áður. Binding eykst því um 13% á milli ára.

Útgáfa hálfsársuppgjörs loftslagsbókhalds er liður í upplýsingagjöf okkar um framgang loftslagsáætlunar Landsvirkjunar og hvernig okkur miðar áfram í átt að metnaðarfullum markmiðum um kolefnishlutleysi og samdrátt í losun. Hálfsársuppgjör gefur okkur ákveðnar vísbendingar um heildarlosun ársins, en hún er tekin saman í lok árs, rýnd og staðfest af óháðum endurskoðendum og gefin út í árlegu loftslagsbókhaldi fyrirtækisins.

Nánari upplýsingar um hálfsársuppgjör loftslagsbókhalds