Stefna um erlenda starfsemi

Núgildandi stefna um erlenda starfsemi okkar var samþykkt af stjórn í september 2024.

Tilgangur

Tilgangur stefnu um erlenda starfsemi Landsvirkjunar er að setja fyrirtækinu leiðsögn og ramma um hvernig áframhaldandi þróun erlendrar starfsemi er háttað.

Stefna um erlenda starfsemi

Lesa stefnu um erlenda starfsemi

Landsvirkjun býr yfir yfirgripsmikilli þekkingu og reynslu af þróun og rekstri vatnsafls- og jarðvarmavirkjana sem spurn er eftir utan Íslands. Erlend starfsemi Landsvirkjunar styður við framtíðarsýn fyrirtækisins um sjálfbæran heim, knúinn endurnýjanlegri orku. Við nýtum þekkingu okkar og reynslu erlendis með sjónarmið loftslagsaðgerða, samfélagslegra framfara og efnahagslegs ávinnings að leiðarljósi.

Í erlendri starfsemi sér Landsvirkjun tækifæri til að vaxa á nýjum mörkuðum, auka virði fyrirtækisins og hækka arðgreiðslur til lengri tíma, minnka safnáhættu, afla tengsla og þekkingar sem nýst geta á Íslandi og auka hæfi fyrirtækisins til að laða að framúrskarandi starfsfólk þar sem vinnustaðurinn verður áhugaverðari og alþjóðlegri.

Í erlendri starfsemi Landsvirkjunar verða í forgangi þróunarverkefni og fjárfestingar tengdar vatnsafli, vindorku og jarðvarma. Slík verkefni á norðurslóðum, sér í lagi í Kanada og á Grænlandi, verða í forgangi. Stefnt verði að því að fjárfesta í endurnýjanlegri raforkuvinnslu erlendis sem samtals nemi allt að 350 MW af uppsettu afli í eigu Landsvirkjunar fyrir árið 2045. Fyrir árið 2035 sé stefnt að því að fjárfesta í endurnýjanlegri raforkuvinnslu erlendis sem samtals nemi allt að 100 MW af uppsettu afli í eigu Landsvirkjunar.

Mælikvarðar

  • Uppsett afl erlendis í eigu Landsvirkjunar

    Markmið: Allt að 100 MW til ársins 2035 og allt að 350 MW til ársins 2045

  • Eignir erlendis (USD)

  • Eiginfjárarðsemi erlendra fjárfestinga (%)

  • Forðuð losun (tCO₂)

Innleiðing

Forstjóri ber ábyrgð gagnvart stjórn á innleiðingu stefnunnar.

Erlend starfsemi skal ekki koma niður á starfsemi fyrirtækisins á Íslandi sem er í forgangi þegar kemur að bæði fjármagni og starfskröftum.

Hver fjárfesting erlendis skal uppfylla sambærilegar kröfur og Landsvirkjun gerir á Íslandi hvað varðar arðsemi, áhættu, sjálfbærni, umhverfismál og siðferði.

Hver fjárfestingarákvörðun erlendis skal koma til umfjöllunar og samþykktar hjá stjórn Landsvirkjunar líkt og fjárfestingar á Íslandi.