Ávarp stjórnarformanns

Oft var þörf, en nú er nauðsyn

Lesa ársskýrslu 2024

Það hefur verið mikill heiður fyrir mig að fá að gegna stöðu stjórnarformanns Landsvirkjunar síðasta árið. Ég þekki fyrirtækið vel, enda var ég fyrst skipaður í stjórn árið 2014 og var varaformaður stjórnar áður en ég tók við sem formaður.

Jón Björn Hákonarson, stjórnarformaður Landsvirkjunar
Jón Björn Hákonarson, stjórnarformaður Landsvirkjunar

Af þessum áralöngu kynnum í gegnum störf mín get ég fullyrt að Landsvirkjun er einstakt fyrirtæki í sögu Íslands, sannkölluð þjóðargersemi. Þar vinnur framúrskarandi fólk sem tekur ábyrgð sína alvarlega, vandar öll vinnubrögð en lætur verkin tala. Það veit að því er trúað fyrir þjóðhagslega mikilvægum hagsmunum; nýtingu endurnýjanlegra orkuauðlinda þjóðarinnar, og áttar sig á því að rafmagn er súrefni samfélagsins og undirstaða þeirra lífskjara sem við teljum sjálfsögð í nútímaþjóðfélagi.

Með skynsamlegum ákvörðunum hefur Landsvirkjun tekist að byggja upp öflugt raforkukerfi, en um leið að styrkja rekstur fyrirtækisins og vel það. Fjárhagslegur styrkur þess er meiri en nokkru sinni fyrr og það hefur aldrei verið jafn vel í stakk búið til að sinna ákalli atvinnulífs og samfélags um aukna orku. Arðgreiðslur síðustu ára hafa verið mikil búbót fyrir ríkissjóð og undirstrikað nauðsyn þess að Landsvirkjun verði aldrei seld til einkaaðila. Fyrirtækið er sameign þjóðarinnar, eins og auðlindirnar sem það nýtir, og verður vonandi svo um ókomna tíð, landi og þjóð til heilla.

Hér ríkir samfélagsleg sátt um að við verðum að rjúfa þá kyrrstöðu sem ríkt hefur í orkumálum þjóðarinnar að undanförnu. Því miður hefur Landsvirkjun ekki fengið að sinna sínu hlutverki sem skyldi síðustu ár, þrátt fyrir að hafa ítrekað bent á nauðsyn þess að setja aukinn kraft í orkuöflun fyrir þjóðina. Fyrir því eru margþættar ástæður, en eftir stendur sú staðreynd að stofnanir samfélagsins verða að girða sig í brók ef ekki á illa að fara, og standa fyrir samstilltu og kröftugu átaki til að eyða þeirri stöðnun í orkumálum sem ógnar velferð íslensku þjóðarinnar og mun hamla orkuskiptum og frekari verðmætasköpun og atvinnuuppbyggingu. Á borðum fyrirtækisins eru nú virkjanakostir sem unnið er að því að koma til framkvæmda og mikilvægt er að á því verði ekki frekari dráttur vegna óljóss regluverks.

Oft var þörf, en nú er nauðsyn.