Ávarp forstjóra

Við megum engan tíma missa

Lesa ársskýrslu 2024

Rekstur Landsvirkjunar gekk áfram vel á árinu 2024, þótt afkoman hafi ekki jafnast á við metárið 2023. Aðstæður voru krefjandi á árinu, vatnsbúskapur sögulega lakur, sem leiddi til þess að tekjur drógust saman vegna minni sölu. Þá urðu breytingar á verðtengingu í samningi við stórnotanda, auk þess sem innleystar áhættuvarnir lækkuðu frá fyrra ári.

Afkoman var því vel ásættanleg miðað við aðstæður. Fjárhagsleg staða fyrirtækisins hefur aldrei verið betri og þar með bolmagn þess til þess að setja þann kraft í orkuöflun sem er nauðsynlegur til að mæta þörfum íslensks samfélags.

Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar
Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar

Hlutverk Landsvirkjunar er að hámarka verðmæti þeirra endurnýjanlegu orkulinda sem fyrirtækinu er trúað fyrir, með sjálfbærni og hagkvæmni að leiðarljósi. Okkur sem stöndum í stafni hjá þessu orkufyrirtæki þjóðarinnar er treyst fyrir þessu mikilvæga hlutverki.

Í því felst ekki aðeins að reka virkjanir og orkukerfi fyrirtækisins af alúð og ábyrgð. Hin hlið peningsins er orkuöflun. Hlutverk okkar er ekki síður að horfa fram á veginn og sjá til þess að næg orka verði fyrir hendi svo þjóðfélagið geti vaxið og dafnað, lífskjör batnað og hægt sé að hverfa frá notkun jarðefnaeldsneytis eins og tæknin leyfir okkur.

Því miður höfum við hjá Landsvirkjun ekki fengið að rækja það hlutverk okkar sem skyldi, þrátt fyrir að við höfum margoft bent á nauðsyn þess að taka til hendinni í orkuöflun. Afleiðingin er fyrirsjáanleg; þegar skortur er á vöru eða þjónustu kemur þrýstingur á verðið.

Ástandið sem nú ríkir í orkumálum þjóðarinnar er sjálfskapað, því þungt og flókið regluverk hefur tafið sjálfsagða nýtingu okkar hagkvæmustu virkjunarkosta. Vonandi ber þjóðin gæfu til þess að leysa þennan hnút sem fyrst, því við megum engan tíma missa.

Í þessari ársskýrslu lýsum við starfsemi Landsvirkjunar árið 2024. Skýrslunni er skilað inn sem framvinduskýrslu um markmið okkar samkvæmt Global Compact sáttmála Sameinuðu þjóðanna (UNGC). Þar með staðfestum við vilja okkar til að vinna að heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna og í samræmi við tíu viðmið samtakanna. Við lýsum yfir áframhaldandi stuðningi við UN Global Compact.