Leiðarljós brautryðjendanna
Nú árið 2024, þegar enn eitt framúrskarandi rekstrarár Landsvirkjunar er gert upp, verða hundrað ár liðin frá fæðingu fyrsta stjórnarformanns fyrirtækisins, Jóhannesar Nordal, en hann lést 5. mars 2023. Jóhannes var ein af driffjöðrunum í vegferð íslensku þjóðarinnar til athafnafrelsis, atvinnuuppbyggingar og verðmætasköpunar á 20. öldinni, þegar horfið var frá kotbúskap fyrri alda og grunnur lagður að nútímasamfélagi.
Jóhannes gegndi lykilhlutverki við stofnun Landsvirkjunar og í þeim samningaviðræðum sem gerðu hana mögulega. Lög Alþingis um fyrirtækið, sem samþykkt voru á afmælisdegi hans, 11. maí 1965, voru mikilvægur áfangi á þessari leið Íslendinga til hagsældar og nútímaþæginda. Með byggingu Búrfellsstöðvar og þeirri uppbyggingu sem fylgdi í kjölfarið varð Landsvirkjun að því hryggjarstykki raforkukerfisins sem hún er enn í dag. Óvíst er að án forsjálni og einurðar Jóhannesar og annarra sem unnu að stóriðju- og orkumálum hefði þróun raforkumála á Íslandi orðið sú sem raun ber vitni og lífskjör þjóðarinnar tekið stökk inn í nútímann eins og reyndin varð.
Afkoma Landsvirkjunar á rekstrarárinu 2023 var sú besta frá stofnun fyrirtækisins. Hagnaður af grunnrekstri jókst um 19% frá árinu áður, sem þó var metár, og hlutfall vaxtaberandi skulda af rekstrarhagnaði er komið niður í það lægsta sem gengur og gerist hjá sambærilegum fyrirtækjum. Landsvirkjun stendur styrkari fótum fjárhagslega en nokkru sinni fyrr. Þessi einstaki árangur sem við fögnum nú hefði ekki verið mögulegur án traustra stoða, markvissrar stefnumótunar og þrotlausrar vinnu starfsfólks fyrirtækisins.
Lykilatriði er fyrir okkur Íslendinga að missa ekki sjónar á því hvernig grunnurinn var lagður að þeirri sterku stöðu í orkumálum sem við höfum verið í frá því á síðustu öld og er ein af megin forsendum hagsældar og velferðar í landinu. Nýtum áfram auðlindirnar og tækifærin sem í þeim felast til hagsbóta og framfara fyrir land og þjóð!