Ávarp forstjóra

Besta rekstrarár frá stofnun Landsvirkjunar

Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar
Lesa ársskýrslu 2023

Árið 2023 var besta rekstrarár í tæplega 60 ára sögu Landsvirkjunar. Hagnaður af grunnrekstri jókst um 19% frá árinu 2022, sem þó var metár. Fjárhagsstaða fyrirtækisins hefur aldrei verið betri, eiginfjárhlutfall er hærra en nokkru sinni fyrr og hlutfall skulda af rekstrarhagnaði er jafn lágt eða lægra en gengur og gerist hjá öðrum orkufyrirtækjum á Norðurlöndunum sem við berum okkur saman við.

Á meðan rekstur orkufyrirtækis þjóðarinnar gengur betur en nokkru sinni fyrr eru blikur á lofti í raforkumálum Íslendinga. Framkvæmdir við orkuöflun hafa tafist af ýmsum orsökum, og líkur eru á því að raforkuframleiðsla nái ekki að anna eftirspurn vegna orkuskipta og almenns vaxtar samfélagsins fyrr en í fyrsta lagi á árunum 2027-28. Vonir standa þó til þess að hægt verði að hefja framkvæmdir við Hvammsvirkjun og Búrfellslund á árinu 2024, þá virkjunarkosti sem eru komnir lengst í þróun hjá fyrirtækinu. Einnig er unnið að lokaundirbúningi fyrir stækkun Þeistareykjavirkjunar og stækkun Sigölduvirkjunar og stefnt á að fá heimild stjórnar Landsvirkjunar til að hefja útboð tengd þeim framkvæmdum síðar á árinu.

Rekstrarárin 2022-23 hafa verið einstök í sögu fyrirtækisins, einkum vegna endursamninga síðustu ára, hagstæðra aðstæðna á mörkuðum og raforkusamnings við stórnotanda sem tengdur var verðþróun á Nordpool og reyndist Landsvirkjun mjög hagstæður en er nú runninn út. Áfram eru horfur á góðri afkomu Landsvirkjunar á árinu 2024, en ekki eru líkur á því að markaðsumhverfi verði jafn hagstætt og þessi tvö ár fyrr en endursamningum við Alcoa lýkur og nýjar aflstöðvar hefja rekstur.

Í þessari ársskýrslu lýsum við starfsemi Landsvirkjunar árið 2023. Skýrslunni er skilað inn sem framvinduskýrslu um markmið okkar samkvæmt Global Compact sáttmála Sameinuðu þjóðanna (UNGC). Þar með staðfestum við vilja okkar til að vinna að heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna og í samræmi við tíu viðmið samtakanna. Við lýsum yfir áframhaldandi stuðningi við UN Global Compact.