Hörður Arnarson forstjóri rakti uppbyggingu undanfarinna áratuga og hversu vel hefur tekist til að starfa í samræmi við umhverfi og náttúru. Græna orkan væri lífsgæði okkar allra og samtvinnuð sjálfsmynd þjóðarinnar.
Landsvirkjun framleiðir um 75% alls rafmagns á Íslandi. Hörður nefndi sérstaklega hversu vandað og ítarlegt viðhald allra stöðva er og snyrtilegt umhverfi þeirra, enda sýni kannanir að sveitungar þeirra séu sáttir. Þessar eilífðarvélar séu grunnur velsældar samfélagsins.
Græna orkan er besta framlag okkar til loftslagsmála, að mati Harðar. Samningar við stórnotendur hafi verið grunnurinn að uppbyggingu raforkukerfisins og þeir stórnotendur séu mjög mikilvægur þáttur í efnahagslífi okkar. Vissulega hafi Landsvirkjun tekist á við stórnotendur um raforkuverð en alltaf hafi fundist lausn sem Landsvirkjun sé sátt við og sem tryggir stórnotendum hagkvæman rekstur.
Hörður benti á að íslenska raforkukerfið ætti engan sinn líka í heiminum, með 100% endurnýjanlegri orku og ekkert varaafl að grípa til. Það væri krefjandi að virkja beljandi jökulfljót eða bora í virk eldfjallasvæði, en þetta hefði okkur tekist með afar góðum árangri.
Á síðasta ári var kerfið okkar fullselt og á sama tíma var vatnsbúskapurinn með versta móti. Hörður benti á að þrátt fyrir þetta hefði orkufyrirtæki þjóðarinnar tekist að standa við allar skuldbindingar.
Forstjórinn fór fögrum orðum um mannauð fyrirtækisins og trausta innviði þess. Hann benti á að ekkert fyrirtæki á Íslandi skilaði jafn miklum arði til eigenda sinna og Landsvirkjun. Stjórn hafi lagt til 25 milljarða arð, tekjuskattur á síðasta ári hafi numið 12 milljörðum og samtals renni því 37 milljarðar í ríkissjóð þetta eina rekstrarár. Frá 2021 hafi Landsvirkjun samtals greitt 91 milljarð í arð og 61 milljarð í skatta, samtals 152 milljarða króna, um leið og skuldir voru lækkaðar um 90 milljarða.
Hörður sagði að mikilvægar nýframkvæmdir væru loks hafnar og hefði ekki mátt síðar vera, því eftirspurn fari sífellt vaxandi. Orkuskiptum hafi seinkað, raforkuverð til almennra neytenda hækkað og Landsvirkjun hafi ekki getað stutt við öll fyrirtæki sem óski samninga um raforku. Þá sagðist hann taka undir með fjármálaráðherra að auka þyrfti ávinning nærsamfélags virkjana og tryggja sanngjarna skiptingu hans. Til framtíðar skorti skýra sýn á orkuþörf okkar, hvað þurfi til orkuskipta, til að styðja við hagvöxt og styðja ný fyrirtæki. Þetta þurfi stöðugt að endurmeta.
Loks sagði Hörður forstjóri að framtíðin væri björt, en við yrðum að nýta tækifærin. Við ættum skuldlausar eilífðarvélar sem við gætum verið stolt af. Þær væru það besta sem við færðum komandi kynslóðum.