Hörður Arnarson forstjóri sagði að Landsvirkjun hefði sett þau markmið árið 2010 að hækka verð til stórnotenda, tryggja fjölbreyttari tekjustofna og lækka skuldir. Þetta hefði tekist.
Raforkukerfið væri hins vegar uppselt og ástæða til að hafa áhyggjur af orkuöryggi fyrir heimili og smærri fyrirtæki. Þar væri nauðsynlegt að bregðast við hið fyrsta.
Hörður sagði að næstu verkefni Landsvirkjunar væru Hvammsvirkjun, vindmyllulundur við Búrfell, stækkun Þeistareykjavirkjunar og aflaukning í Sigöldu.
Undirbúningur virkjana og bygging væru tímafrek, um 10-15 ár. Um 3-4 ár væru þar til næstu virkjanir tækju til starfa og ekki seinna vænna að huga strax að næstu verkefnum.
Kerfið væri núna fullselt, sem væri í sjálfu sér eftirsóknarverð staða, en óhjákvæmilega kallaði þetta á forgangsröðun.
Þar hlytu heimili og smærri fyrirtæki að vera fremst í röðinni.
Rafnar Lárusson, framkvæmdastjóri fjármála og upplýsingatækni, rakti batnandi hag Landsvirkjunar, sem hefur aldrei staðið jafn styrkum fótum. Hann fór yfir ört lækkandi skuldastöðu frá 2010, á sama tíma og endursamið var við stærstu viðskiptavini. Um leið þurfti að fjármagna nýjar virkjanir.
Á þessu tímabili hafa tekjurnar tvöfaldast og þá hækkun má fyrst og fremst rekja til endursamninganna. Ábati af nýjum samningum frá 2010 nemi um 150 milljörðum króna umfram það sem eldri samningar hefðu skilað.
Hagnaðurinn hefur aukist í samræmi við tekjur og 2022 var annað árið í röð sem met var slegið. Engin ný lán hafa verið tekin með ríkisábyrgð og eldri lán með slíkri ábyrgð eru að hverfa úr bókunum.
Á sama tíma og skuldir voru lækkaðar var ráðist í nýjar virkjanir, Búðarhálsstöð, Búrfell II og Þeistareykjastöð, auk þess sem tvær tilraunavindmyllur voru teknar í notkun á Hafinu.
Í ár greiðir Landsvirkjun 20 milljarða kr. í arð til ríkisins. Þar við bætast 30 milljarða tekjuskattsgreiðslur og skattur af hagnaði vegna sölu Landsnets til ríkisins. Alls renna því 50 milljarðar í ríkissjóð, sem jafngildir rúmlega helmingi byggingarkostnaðar nýs Landspítala. Og nemur 5% af heildartekjum íslenska ríkisins í ár.
Frá 2010 hefur lánshæfiseinkunn Landvirkjunar færst úr spákaupmennskuflokki í BBB+ og fyrirtækið stendur því jafnfætis stærstu orkufyrirtækjum Svía og Dana og feti framar en Finnar. Aðeins Norðmenn eru þar framar.
Kristín Linda Árnadóttir aðstoðarforstjóri fór yfir hvernig Landsvirkjun hefur tekist að vera góður granni á starfssvæðum sínum og hvaða áform eru uppi. Hún sagði fyrirtækið hafa að leiðarljósi að nærsamfélag aflstöðva nyti ávinnings af starfseminni, lögð væri áhersla á að styðja við málefni og verkefni sem hefðu jákvæð samfélagsáhrif, einnig á uppbyggileg samskipti og samvinnu og um leið vildi Landsvirkjun stuðla að orkutengdri nýsköpun og vera leiðandi afl í samfélaginu.
Landsvirkjun væri víða stærsti skattgreiðandi sveitarfélaga þar sem aflstöðvar fyrirtækisins væru, starfaði með nærsamfélaginu að t.d. brunavörnum og kæmi að mörgum skemmtilegum verkefnum eins og Eimi á Norðurlandi, Orkídeu á Suðurlandi, Bláma á Vestfjörðum og Eygló á Austurlandi.
Kristín Linda sagði að Landsvirkjun hefði víða komið að uppbyggingu innviða og tók sem dæmi vegagerð. Á undanförnum 60 árum hefði Landsvirkjun lagt um 650 km af vegum og slóðum. Sú vegalengd jafngildir hálfum hringveginum, eða akstri frá Reykjavík norðurleiðina til Egilsstaða.
Þá rakti Kristín Linda niðurstöður kannana sem Gallup vann fyrir Landsvirkjun. Þar kemur fram að rúmlega 76% landsmanna telja virkjanir Landsvirkjunar hafa haft jákvæð áhrif á íslenskt samfélag og 63% segjast hlynnt frekari virkjanaframkvæmdum. Kristín Linda sagði þetta gríðarlega mikilvægar upplýsingar fyrir orkufyrirtæki í eigu þjóðarinnar.
Þegar fólk sem býr í nærsamfélagi virkjana er spurt er ánægjan enn meiri. Þar eru 78-85% aðspurðra á því að virkjanirnar hafi haft jákvæð áhrif á nærsamfélagið.
Erlendir ferðamenn eru mjög sáttir við græna orkuvinnslu á Íslandi. 96% höfðu orðið vör við orkuvinnslu á ferðum sínum um landið og sama hlutfall segist jákvætt. Þrír af hverjum fjórum sögðu orkuvinnsluna hafa haft jákvæð áhrif á upplifun sína af íslenskri náttúru. Kristín Linda sagði niðurstöðurnar sýna skýrt að ferðaþjónusta og orkuvinnsla ættu ágæta samleið.
Að lokum lagði aðstoðarforstjórinn áherslu á að nærsamfélög þyrftu að njóta afraksturs orkuvinnslu heima í héraði í auknum mæli.
Tinna Traustadóttir framkvæmdastjóri Sölu og þjónustu sagði ástæðu til að fagna því sérstaklega að raforkuöryggi fyrir almenning væri loksins komið á dagskrá, með vinnu að laga- og reglugerðarbreytingum. Landsvirkjun hefði lengi talað fyrir mikilvægi þess að koma heimilum og minni fyrirtækjum í var hvað raforkuöryggi áhrærir. Stórnotendur væru þegar búnir að tryggja sinn hag í langtímasamningum.
Landsvirkjun getur ekki ein tryggt raforkuöryggi, sagði Tinna. Orkufyrirtæki og stjórnvöld þyrftu að snúa bökum saman og koma raforkuöryggi í viðunandi horf. Þar til bærar stofnanir og yfirvöld þyrftu að hafa yfirsýn yfir stöðu mála, en nú hefði enginn þá yfirsýn eða gæti svarað því að hve miklu leyti raforkuöryggi almennings hefði verið tryggt. Fyrirsjáanleiki á stækkandi markaði væri nauðsyn.
Tinna sagði hlutdeild Landsvirkjunar á heildsölumarkaði um 50%. Þar væru gerðir samningar við sölufyrirtæki til einhverra ára sem seldu orkuna áfram til heimila og smærri fyrirtækja. Þar væri fyrirsjáanleiki.
Hinn helmingur orkunnar á heildsölumarkaði kæmi frá sölufyrirtækjum sem hefðu yfir eigin raforkuvinnslu að ráða. Þar væri ekkert sem segði að orkan þeirra myndi rata áfram í sama mæli til heimila og smærri fyrirtækja. Þau gætu ákveðið að breyta um kúrs, selja orkuna frekar til gagnavera, landeldis, til rafeldsneytisvinnslu eða örþörungavinnslu. Það væri gott og gilt en á slíku þyrfti að hafa fyrirvara því skuldbindingar fylgdu því að selja inn á markað fyrir heimili og smærri fyrirtæki.
Þá sagði Tinna að aðskilja þyrfti markað fyrir heimili og smærri fyrirtæki frá markaði fyrir stórnotendur. Orkan þyrfti að rata á rétta staði, en nú væri hætta á leka milli markaða.
Það gæti verið freistandi fyrir stórnotendur að leita á heildsölumarkaðinn, en sá markaður væri ætlaður almenningi. Búa yrði svo um hnútana að heimili kepptu ekki við stórnotendur um örugga orku.