Arðgreiðslustefna

Núgildandi arðgreiðslustefna var samþykkt af stjórn Landsvirkjunar í mars 2023.

Tilgangur arðgreiðslustefnu

Í lögum um Landsvirkjun segir að arðgreiðslur fyrirtækisins skuli ákveðnar með hliðsjón af afkomu fyrirtækisins og yfirfærðum hagnaði frá fyrri árum. Almenn eigendastefna ríkisins leggur áherslu á að félög í eigu ríkisins horfi til langtímamarkmiða um uppbyggingu og rekstur og tryggi fullnægjandi viðhald tekjumyndandi eigna. Eigendastefnan leggur einnig áherslu á að félög í eigu ríkisins skili ásættanlegri afkomu og að þau greiði ríkissjóði eðlilegan arð af því eigin fé sem bundið er í félögunum.

Arðgreiðslustefna gerir væntar arðgreiðslur Landsvirkjunar og áhrif þeirra á fjárhagslegan styrk fyrirtækisins fyrirsjáanlegar. Arðgreiðslustefnan er því mikilvæg í samskiptum við annars vegar eiganda fyrirtækisins og hins vegar lánveitendur og matsfyrirtæki vegna fjármögnunar þess.

Stjórn Landsvirkjunar hefur arðgreiðslustefnuna til hliðsjónar þegar hún gerir tillögu til aðalfundar fyrirtækisins um arðgreiðslu.

Arðgreiðslustefna

Arðgreiðslustefnan á PDF

Ákvörðun um arðgreiðslu Landsvirkjunar er tekin á aðalfundi fyrirtækisins sem haldinn er í apríl ár hvert, sbr. 7. gr. laga um Landsvirkjun. Arðgreiðslustefna þessi segir til um hver árleg upphæð arðgreiðslu skuli að hámarki vera.

Hámarksvimiðið er ákvarðað með hliðsjón af handbæru fé fyrirtækisins frá rekstri nýliðins rekstrarárs og umfangi fjárfestinga á nýliðnum rekstrarári auk þess sem tekið skal tillit til skuldastöðu fyrirtækisins í lok sama rekstrarárs. Í þessu samhengi er miðað við ársuppgjör Landsvirkjunar.

Þá eru einnig til viðmiðunar eftirfarandi fjárhagslegar kennitölur:

  • Að veltufé frá rekstri (FFO)/Nettó skuldir fari ekki undir 25%
  • Að eiginfjárhlutfall fari ekki undir 40%

Einnig skal hafa til hliðsjónar við ákvörðun arðgreiðslu, áhrif þeirra fjárhagslegu skuldbindinga sem fyrirtækið stendur frammi fyrir, dæmi þessa eru fjárfestingar og skattgreiðslur.