Tilgangur arðgreiðslustefnu
Í lögum um Landsvirkjun segir að arðgreiðslur fyrirtækisins skuli ákveðnar með hliðsjón af afkomu fyrirtækisins og yfirfærðum hagnaði frá fyrri árum. Almenn eigendastefna ríkisins leggur áherslu á að félög í eigu ríkisins horfi til langtímamarkmiða um uppbyggingu og rekstur og tryggi fullnægjandi viðhald tekjumyndandi eigna. Eigendastefnan leggur einnig áherslu á að félög í eigu ríkisins skili ásættanlegri afkomu og að þau greiði ríkissjóði eðlilegan arð af því eigin fé sem bundið er í félögunum.
Arðgreiðslustefna gerir væntar arðgreiðslur Landsvirkjunar og áhrif þeirra á fjárhagslegan styrk fyrirtækisins fyrirsjáanlegar. Arðgreiðslustefnan er því mikilvæg í samskiptum við annars vegar eiganda fyrirtækisins og hins vegar lánveitendur og matsfyrirtæki vegna fjármögnunar þess.
Stjórn Landsvirkjunar hefur arðgreiðslustefnuna til hliðsjónar þegar hún gerir tillögu til aðalfundar fyrirtækisins um arðgreiðslu.