Sköpum viðskiptavinum okkar alþjóðlega sérstöðu
Landsvirkjun býður viðskiptavinum sínum raforku með eitt lægsta kolefnisspor í heimi, samkeppnishæft raforkuverð og rafmagnssamninga til langs tíma. Þetta skapar viðskiptavinum Landsvirkjunar alþjóðlega sérstöðu. Landsvirkjun og Norðurál hafa gert milli sín samkomulag um að aflétta trúnaði af rafmagnssamningum milli fyrirtækjanna tveggja. Þetta er í fyrsta sinn sem slíkt er gert í samningum Landsvirkjunar og er það von okkar að birtingin styðji við og auki opinbera og opna umræðu um orkumál á Íslandi.
Þegar kemur að rafmagnssamningum við stórnotendur á Íslandi er mest fjallað um raforkuverðið sjálft enda miklir fjárhagslegir hagsmunir undir. Þegar kemur að raforkuverði í samningunum milli Landsvirkjunar og Norðuráls eru nokkur lykilatriði sem vert er að draga fram:
Langtíma rafmagnssamningar Landsvirkjunar og Norðuráls eru tveir og hafa þeir lengst af verið tengdir álverði.
Álverðstengingar án verðgólfs í rafmagnsamningum eru arfleifð liðins tíma og ákvörðun um tengingarnar byggði á spám um álverð sem ekki raungerðust. Rafmagnssamningar með slíkar tengingar hafa ekki staðist væntingar Landsvirkjunar og raforkuverð þeirra hefur verið undir kostnaðarverði Landsvirkjunar.
Raforkuverð annars samningsins við Norðurál tók miklum breytingum 2019 þegar raforkuverð hans var tengt verði á Nord Pool, raforkumarkaði Norðurlandanna, í stað álverðs. Sá markaður er mjög sveiflukenndur en samningurinn hefði skilað Landsvirkjun hærra raforkuverði að meðaltali en eldri rafmagnssamningurinn. Með tengingu við Nord Pool fær Landsvirkjun sambærilegt raforkuverð og önnur orkufyrirtæki á Norðurlöndunum.
Tveir langtímasamningar
Landsvirkjun selur raforku til Norðuráls samkvæmt tveimur langtímasamningum, auk sölu til skamms tíma eftir atvikum. Langtímasamningarnir eru tengdir markaðsverði, án verðgólfs eða verðþaks og Norðurál hefur ekki lagt fram ábyrgðir í tengslum við raforkukaup.