Alþjóðleg samkeppni um orkusækin fyrirtæki
Fyrirtæki sem nota mikla raforku í starfsemi sinni horfa gjarnan til nokkurra landa í senn og bera saman kosti og galla þess að staðsetja starfsemi sína í hverju landi fyrir sig. Þættir eins og viðskipta- og stjórnmálaumhverfi, menntunarstig, landfræðileg staðsetning og fleira koma þar til álita. Raforkuverð, stöðugleiki afhendingar og uppruni raforkunnar eru einnig lykilatriði.
Þrátt fyrir að vera markaðsráðandi á Íslandi sem stærsta raforkufyrirtæki landsins er Landsvirkjun aðeins einn af mörgum valkostum sem alþjóðleg orkusækin fyrirtæki íhuga við staðarval sitt. Því er mikilvægt fyrir Landsvirkjun að fylgjast grannt með þróun orkumála á heimsvísu.