Alþjóðleg samkeppni um orkusækin fyrirtæki

29.08.2024Viðskiptagreining

Sigurður Logi Snæland, sérfræðingur hjá Viðskiptagreiningu og þróun markaða, bloggar um þróun á raforkumörkuðum í Skandinavíu.

Sigurður Logi Snæland
SérfræðingurViðskiptagreining og þróun markaða

Alþjóðleg samkeppni um orkusækin fyrirtæki

Fyrirtæki sem nota mikla raforku í starfsemi sinni horfa gjarnan til nokkurra landa í senn og bera saman kosti og galla þess að staðsetja starfsemi sína í hverju landi fyrir sig. Þættir eins og viðskipta- og stjórnmálaumhverfi, menntunarstig, landfræðileg staðsetning og fleira koma þar til álita. Raforkuverð, stöðugleiki afhendingar og uppruni raforkunnar eru einnig lykilatriði.

Þrátt fyrir að vera markaðsráðandi á Íslandi sem stærsta raforkufyrirtæki landsins er Landsvirkjun aðeins einn af mörgum valkostum sem alþjóðleg orkusækin fyrirtæki íhuga við staðarval sitt. Því er mikilvægt fyrir Landsvirkjun að fylgjast grannt með þróun orkumála á heimsvísu.

Horft til Skandinavíu

Einn af þeim mörkuðum sem Landsvirkjun fylgist sérstaklega vel með er Skandinavía, en greiningarfyrirtækið Volue gaf nýlega út skýrslu um þróun raforkumála á svæðinu. Hér verður farið yfir helstu niðurstöður skýrslunnar.

Danmörk, Noregur, Svíþjóð og Finnland tilheyra sameiginlegum raforkumarkaði sem heitir Nord Pool. Þótt markaðurinn nái til fleiri landa, kemur meginhluti raforkunnar sem er í boði til kaups og sölu frá þessum löndum. Að jafnaði flytur Skandinavía út raforku, enda eru Norðmenn og Svíar ríkir af vatnsafli sem er sveigjanlegt, eins og Íslendingar þekkja vel. Vatnsafl er uppspretta 50% orkuvinnslunnar í Skandinavíu, en auk þess er unnin kjarnorka, vindorka, sólarorka og raforka úr jarðefnaeldsneyti í litlu magni.

Vindorka og sólarorka eru oft nefnd óstýranlegir orkukostir, þar sem við getum ekki stýrt því hvenær vindurinn blæs eða sólin skín. Þessi sveiflukennda raforkuvinnsla samræmist vel stýranleika vatnsaflsvirkjana, þar sem uppistöðulón þeirra virka sem eins konar batterí sem hægt er að nýta þegar myrkva tekur eða vind lægir.

Vind- og sólarorka í vexti

Endurreisnartímabil kjarnorku framundan?

Horfum 15 ár fram í tímann, til ársins 2040. Við lok þessa tímabils er gert ráð fyrir að yfir 80% raforkuframleiðslu í Skandinavíu muni koma frá endurnýjanlegum orkugjöfum. Allar þjóðirnar munu leggja aðaláherslu á frekari uppbyggingu vindlunda, bæði á landi og sjó, auk sólarorku. Hingað til hafa einungis Danir nýtt vindorku á sjó, en Norðmenn, Svíar og Finnar hyggjast fylgja fordæmi þeirra á seinni hluta þessa áratugar. Hlutur vindorkunnar mun þannig aukast um 20% og verða tæp 40% við lok tímabilsins.

Í Svíþjóð og Finnlandi er kjarnorka stór þáttur í raforkuframleiðslunni, eða um 30-40% raforkuvinnslu í hvoru landinu fyrir sig. Þrátt fyrir að blikur hafi verið á lofti undanfarið varðandi framtíð kjarnorku virðast Skandinavíulöndin stefna að því að auka hlut hennar á komandi árum. Til marks um það hafa Svíar og Finnar framlengt rekstrarleyfi kjarnorkuvera sem átti að loka á næstunni, og áætlað er að ný kjarnorkuver muni rísa í hvoru landi fyrir sig á tímabilinu 2035-2040. Þá hafa Norðmenn sett kjarnorku á dagskrá og hafið athugun á hagkvæmni þessa orkugjafa.

Verð háð eftirspurn, framboði, orkutegund og tengingum

Meðalverð raforku er gjarnan lægra í Norður-Skandinavíu, þar sem flestar vatnsaflsvirkjanir svæðisins eru staðsettar, og hækkar því sunnar sem dregur, þar sem eftirspurnin er hæst. Raforkuframleiðsla á meginlandi Evrópu er almennt dýrari en í Skandinavíu, þar sem gas- og kolaorkuver eru algengari. Þessi hærri verð „smitast“ til suðurhluta Skandinavíu þar sem raforkustrengir til meginlandsins eru staðsettir.

Sé horft til ársins 2040 er gert ráð fyrir að verðmunur milli svæða í Skandinavíu jafnist út með auknum tengingum milli landanna. Mikil uppbygging endurnýjanlegrar orkuvinnslu á meginlandi Evrópi mun leiða til lækkunar á raforkuverði til lengri tíma litið. Hins vegar, þar sem þessi orkuvinnsla er háð veðri og vindum, munu verðsveiflur aukast samhliða þessari þróun.

Mikil óvissa um metnaðarfull markmið í loftslagsmálum

Öll Skandinavíulönd hafa sett sér metnaðarfull markmið um að ná, eða jafnvel fara fram úr, samþykktum Evrópusambandsins um 55% minni losun gróðurhúsalofttegunda árið 2030 miðað við árið 1990. Ef núverandi áætlanir ganga eftir, munu þessi lönd draga úr losun um 55-70%. Hins vegar þarf margt að ganga upp til þess að svo verði, þar sem orkuskipti hafa gengið hægar en vonir stóðu til og óvissa ríkir um hraða uppbyggingar endurnýjanlegra orkugjafa. Þá eru ýmis græn verkefni, t.d. í batteríframleiðslu og grænu vetni, háð nýrri tækni og erfitt að áætla fjölda og tímasetningu þeirra.

Hvað þýðir þetta fyrir Ísland og Landsvirkjun?

Orkumálin í Evrópu eru í mikilli þróun, þar sem áherslan á að skipta út jarðefnaeldsneyti fyrir endurnýjanlegra orkugjafa hefur valdið vaxtaverkjum í formi hærra raforkuverðs og aukinna verðsveiflna. Þessari vegferð er langt frá því að vera lokið, og óvíst hvort þessar áskoranir muni minnka í náinni framtíð. Á Íslandi hefur orkusæknum iðnaði boðist samkeppnishæf raforkuverð í löngum samningum. Fyrirtæki sem koma sér fyrir á landinu er þannig gert fært að gera langtímaáætlanir án þess að hafa áhyggjur af sveiflum í raforkuverði. Farsæl uppbygging fyrirtækja í ál-, kísil-, gagnavers- og landeldisiðnaði er til marks um það.

En betur má ef duga skal. Á næstu árum er Ísland í kjörstöðu til að gera vel í orkuskiptum og byggja upp blómlega starfsemi græns iðnaðar af ýmsum toga. Eftirspurn eftir orku er ekki stöðug heldur sveiflast með aðstæðum. Til að mæta auknum áhuga fyrirtækja í hátækniiðnaði, landeldi og öðrum grænum iðnaði, þarf skýr stefna stjórnvalda að liggja fyrir ásamt skilvirkum ramma um leyfisveitingar. Þetta eru lykilatriði til að tryggja að Ísland verði áfram eftirsóttur valkostur fyrir orkusækinn iðnað.