Græn fjármögnun

Græn fjármögnun er hefðbundin fjármögnun þar sem fjármunum er varið til að fjármagna eignir eða verkefni sem hafa jákvæð áhrif á umhverfis- og loftslagsmál.

Áhersla á loftslagsmál og sjálfbærni í fjármögnun

Landsvirkjun hefur sett upp grænan fjármögnunarramma í samræmi við áherslur fyrirtækisins á sjálfbærni og loftslagsmál.

Af hverju græn fjármögnun?

Græn fjármögnun er notuð til að fjármagna eða endurfjármagna eignir sem stuðla að sjálfbærri, ábyrgri og skilvirkri nýtingu náttúruauðlinda á Íslandi til að framleiða endurnýjanlega orku.

Gjaldgengar eignir eru allar eignir á efnahagsreikningi Landsvirkjunar sem styðja við framleiðslu fyrirtækisins á orku úr endurnýjanlegum orkugjöfum. Allar aflstöðvar fyrirtækisins eru gjaldgengar eignir, en einnig aðrar eignir svo sem eignfærður undirbúningskostnaður, vatns- og jarðhitaréttindi og mannvirki í byggingu.

Græn skuldabréf gefa fjárfestum kost á að finna fjárfestingum sínum grænan farveg, þ.e. styðja við verkefni sem hafa jákvæð umhverfisáhrif. Landsvirkjun var fyrsta íslenska fyrirtækið til að gefa út græn skuldabréf í mars 2018 þegar fyrirtækið gaf út skuldabréf að fjárhæð samtals 200 milljónir Bandaríkjadala. Landsvirkjun gaf einnig út græn skuldabréf í september 2020 að fjárhæð 150 milljónir Bandaríkjadala.

Grænn fjármögnunarrammi Landsvirkjunar

Græni fjármögnunarramminn byggir á fjórum stoðum Green Bond Principles (leiðbeiningar fyrir útgefendur grænna skuldabréfa) sem International Capital Market Association (ICMA) gaf út árið 2018 og Green Loan Principles (leiðbeiningar um umgjörð grænna lána) sem Loan Market Association (LMA) gaf út árið 2020:

  1. Ráðstöfun fjármuna
  2. Ferli um mat og val á verkefnum
  3. Stýringu fjármuna
  4. Upplýsingagjöf

Ráðgjafarfyrirtækið Sustainalytics var fengið til þess að gera úttekt á grænum fjármögnunarramma Landsvirkjunar. Í úttekt Sustainalytics kemur fram að fyrirtækið telur að Landsvirkjun sé í góðri stöðu til að gefa út græna fjármögnun og að grænn rammi Landsvirkjunar sé gagnsær og traustur og samræmist fjórum stoðum grænnar fjármögnunar samkvæmt ICMA Green Bond Principles 2018 og LMA Green Loan Principles 2020.

Skýrslugjöf

Við leggjum áherslu á réttmæta og gagnsæja upplýsingagjöf. Loftslagsbókhald okkar fylgir aðferðafræði Greenhouse Gas Protocol (GHGP) og hefur verið rýnt og staðfest af alþjóðlega endurskoðendafyrirtækinu Bureau Veritas samkvæmt alþjóðlega staðlinum ISO 14064-3 með takmarkaðri vissu (e. limited assurance). Með þessu tryggjum við að niðurstöður okkar séu í samræmi við þá losun sem starfsemin veldur og þá kolefnisbindingu sem við stuðlum að.

Skýrsla ársins 2023 um græna fjármögnun

Í samræmi við græna fjármögnunarrammann gefur Landsvirkjun árlega út skýrslur um ráðstöfun fjármuna og áhrif grænnar fjármögnunar.

Í árslok 2023 var andvirði gjaldgengra grænna eigna (e. Eligible Green Assets) USD 3.122m. Útistandandi græn fjármögnun nam USD 200m. Andvirði grænnar fjármögnunar hefur að fullu verið ráðstafað til gjaldgengra grænna eigna.

Deloitte, endurskoðandi Landsvirkjunar, hefur gefið út staðfestingarskýrslu sem staðfestir að tilgreindar gjaldgengar grænar eignir samræmist skilyrðum sem sett eru fram í græna fjármögnunarrammanum.

Umhverfisáhrif verkefna sem voru fjármögnuð með grænum skuldabréfum

Sjá skýrslu um græna fjármögnun 2023

Áhrif grænnar fjármögnunar eru metin í sparaðri losun gróðurhúsalofttegunda. Spöruð losun gróðurhúsalofttegunda vegna grænnar og endurnýjanlegrar raforkuvinnslu Landsvirkjunar er metin um 2,6 milljón tonn CO2 ígildi.

Spöruð losun á árinu 2023 af útistandandi grænni fjármögnun nam 0,8 kg CO2 ígildi per Bandaríkjadal.

Gefin hefur verið út skýrsla um mat á loftslagsáhrifum gjaldgengra grænna eigna og hlutfallslegum áhrifum vegna útistandandi grænnar fjármögnunar auk þess sem aðferðafræði sem býr að baki er lýst.