Áhersla á loftslagsmál og sjálfbærni í fjármögnun
Landsvirkjun hefur sett upp grænan fjármögnunarramma í samræmi við áherslur fyrirtækisins á sjálfbærni og loftslagsmál.
Af hverju græn fjármögnun?
Græn fjármögnun er notuð til að fjármagna eða endurfjármagna eignir sem stuðla að sjálfbærri, ábyrgri og skilvirkri nýtingu náttúruauðlinda á Íslandi til að framleiða endurnýjanlega orku.
Gjaldgengar eignir eru allar eignir á efnahagsreikningi Landsvirkjunar sem styðja við framleiðslu fyrirtækisins á orku úr endurnýjanlegum orkugjöfum. Allar aflstöðvar fyrirtækisins eru gjaldgengar eignir, en einnig aðrar eignir svo sem eignfærður undirbúningskostnaður, vatns- og jarðhitaréttindi og mannvirki í byggingu.
Græn skuldabréf gefa fjárfestum kost á að finna fjárfestingum sínum grænan farveg, þ.e. styðja við verkefni sem hafa jákvæð umhverfisáhrif. Landsvirkjun var fyrsta íslenska fyrirtækið til að gefa út græn skuldabréf í mars 2018 þegar fyrirtækið gaf út skuldabréf að fjárhæð samtals 200 milljónir Bandaríkjadala. Landsvirkjun gaf einnig út græn skuldabréf í september 2020 að fjárhæð 150 milljónir Bandaríkjadala.