Á landi eru orkuskipti þegar hafin líkt og fjölgun rafbíla sannar. Á næstu árum heldur sú rafvæðing áfram og sérstaklega upp úr 2030 þegar bann við nýskráningu bensín- og díselbíla tekur gildi. Það hentar illa að rafvæða stærri vinnutæki og þunga flutningabíla sem ferðast langar vegalengdir og þar verður vetni nýtt í stað rafmagns. Þá mun metan einnig nýtast þar sem það á við.
Á hafi verður líf- og rafeldsneyti nýtt til að knýja fiski- og flutningaskip. Rafeldsneyti verður framleitt á Íslandi í töluverðu magni og til viðbótar verður flutt inn lífeldsneyti.
Flugsamgöngur, fyrst og fremst alþjóðaflug, munu nýta innflutt lífeldsneyti og að minni hluta innflutt rafeldsneyti, til að uppfylla kröfur Evrópusambandsins um íblöndun og draga þannig úr losun.
Til að knýja orkuskiptin til 2035 þarf um 4 TWst af árlegri raforkuvinnslu, eins og áður er nefnt og einnig þarf að flytja inn líf- og rafeldsneyti. Það er viðráðanleg raforkuþörf sem orkufyrirtæki Íslands geta mætt fyrir 2035 í viðunandi sátt við samfélagið.
Orkuskiptin gerast ekki af sjálfu sér og þurfa stuðning stjórnvalda og vilja atvinnulífsins. Stjórnvöld þurfa að skapa öfluga efnahagslega hvata til orkuskipta, skilvirkari stjórnsýslu og vinna orkuskipta- og rafeldsneytisáætlun. Atvinnulífið þarf að vera reiðubúið til að taka áhættu og leggja út í umtalsverðan kostnað þar sem orkuskiptalausnir eru flestar óhagkvæmar miðað við bruna jarðefnaeldsneytis.
Loftslagið má engan tíma missa og nauðsynlegt að við tökum stór skref í orkuskiptum.