Hagfellt tíðarfar
Tíðarfar í vor og fyrri hluta sumars hefur verið mjög hagfellt á vatnasviðum Landsvirkjunar. Leysingar hófust snemma, strax í byrjun apríl, og innrennsli í miðlunarlón hefur verið vel yfir meðallagi.
Á Þjórsársvæði hefur Hágöngulón þegar fyllst og góðar líkur á að Þórisvatn nái viðunandi stöðu þó ekki sé víst að það fyllist. Tíðin á Austurlandi hefur verið einstaklega góð og jökulbráð er þegar hafin á Brúarjökli inn í Hálslón. Ef tíðarfarið breytist ekki má gera ráð fyrir að Hálslón fyllist um miðjan júlí.
Eftir að leysingum lauk í apríl á vatnasviði Blöndulóns hefur lónið staðið í stað en síðustu tvær vikur hefur innrennsli aukist samfara jökulbráð af Hofsjökli.