Getum bætt nýtni raforku um allt að 8%
Nýta má raforku á Íslandi betur en nú er gert. Alls eru tækifæri til bættrar orkunýtni um 1.500 GWst á ári, eða sem nemur um 8% af núverandi raforkunotkun þjóðarinnar. Af þeim er hægt að spara 356 GWst með núverandi tækni og án óheyrilegs kostnaðar. Sparnaði upp á 797 GWst væri hægt að ná fram með meiri fyrirhöfn og þar er t.d. litið til endurnýtingar glatorku í iðnaði. Talið er að hægt sé að ná 24% af þessum orkusparnaði á næstu fimm árum og 53% á næsta áratug.
Þetta kemur fram í greiningu sem danska ráðgjafarstofan Implement vann fyrir Landsvirkjun, umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið og Orkustofnun.
Helstu niðurstöður eru þær að stærstu auðsóttu tækifærin til orkusparnaðar sé að finna í einkageiranum og opinberri þjónustu, eða 320 GWst. Þá er einnig að finna stór tækifæri í bættri orkunýtni til hitunar þar sem notast er við raforku (178 GWst), endurnýtingu glatvarma frá iðnaði (357 GWst) og bættri nýtni raforku í áliðnaði (112 GWst). Þá eru einnig tækifæri til bættrar nýtingar innan heimila (58 GWst), í landbúnaði (43 GWst), í framleiðslu járnlausra málma (38 GWst) og hjá fiskimjölsverksmiðjum (24 GWst). Einnig felast tækifæri í því að minnka töp í flutningskerfi raforku (25 GWst).