Fyrstu skref að vindorkuveri við Vaðöldu

06.06.2024Búrfellslundur
Séð yfir svæðið þar sem vindmyllurnar munu rísa. Horft er í norður í átt að Sultartangalóni. Fremst á myndinni má sjá að undirbúningur er í startholunum fyrir borunina sem fer fram í sumar.
Séð yfir svæðið þar sem vindmyllurnar munu rísa. Horft er í norður í átt að Sultartangalóni. Fremst á myndinni má sjá að undirbúningur er í startholunum fyrir borunina sem fer fram í sumar.

Vindorkuver rís

Við höfum tekið fyrstu skrefin að framkvæmdum við vindorkuverið okkar sem gengið hefur undir heitinu Búrfellslundur.

Í vindorkuverinu sem rís við Vaðöldu verða tæplega 30 vindmyllur á 18 ferkílómetra svæði og vonir standa til að spaðar þessa fyrsta vindorkuvers landsins verði farnir að snúast í lok árs 2026.

Jarðlög rannsökuð

Í sumar verða ýmsar jarðtæknirannsóknir á svæðinu. Rannsaka þarf jarðlög undir fyrirhuguðum vindmyllum, byggingum og vegi. Rannsóknarsvæðið er allt umhverfis Vaðöldu, neðan Sultartangastíflu og norðan vegar F26, innan Rangárþings ytra.

Í rannsóknunum felst m.a. að bora hátt í 30 m kjarnaboranir, en einnig eru grafnar gryfjur í laus jarðlög við hvert vindmyllustæði. Þá verða 12-15 m loftboranir í vegstæði að fyrirhuguðum vindmyllum og í næsta nágrenni fyrirhugaðra mannvirkja, auk þess sem boraðar verða tvær vatnstökuholur innan svæðisins.

Niðurstöður rannsóknanna veita mikilvægar upplýsingar sem nýtast í hönnun mannvirkja. Áætluð verklok eru í september.