Frekar lök staða í lónum

09.07.2024Orka
Hálslón í veðurblíðu
Hálslón í veðurblíðu

Frekar lök staða í lónum

Vorleysing byrjaði seint á öllum vatnasviðum Landsvirkjunar en í byrjun maí hlýnaði og snjóa leysti. Maí var gjöfull fyrir Blöndulón og Þórisvatn og safnaðist drjúgt í þessi lón. Fyrir austan, í Hálslóni, náði leysingin að stöðva niðurdrátt og halda þannig í horfinu.

Júní var hins vegar kaldur og þurr, sérstaklega eftir norðanhret í byrjun mánaðarins. Í júní bættist því ekkert við Blöndulón og það hægðist á fyllingu Þórisvatns. Eftir miðjan mánuðinn fór að hækka í Hálslóni samfara hækkandi hitastigi þar en enn vantar þó 15 metra upp á að vatnshæðin nái meðalhæð í júlíbyrjun. Hálslón hefur reyndar alltaf fyllst og því standa vonir til þess að jökulleysingin það sem eftir lifir sumars bæti úr.

Of snemmt að segja til um vetrarforðann

Sjá rauntímavöktun á miðlunarlónum

Þótt staðan sé þannig með lakara móti í lónunum núna er algengt að jökulbráð hefjist af krafti fyrri part júlímánaðar. Of snemmt er því að segja til um hver staðan verði í lónunum þegar nýtt vatnsár hefst þann 1. október. Jökulbráð hefur aukist undanfarin ár með hlýnandi loftslagi og haustlægðirnar hafa oft bætt töluverðu við.